guðnimár.annáll.is

Annálleinkahúmorgamalt og gotthugleiðingar í dagsins iðuskemmtilegttrúmál

« Frábært Silfur í gær, eru ,,herskáir” trúleysingjar að mýkjast? · Heim · Vel mælt og ígrundað »

Nokkur orð um Siðmennt og spurningu Sigurðar Hólms

Guðni Már @ 00.42 5/12/07

Stjórnarmaður Siðmenntar, Sigurður Hólm, bar fyrir mig spurningu fyrr í dag sem ég ákvað að svara í nýrri færslu, sem ég ætla að gera hér. Þá ætla ég að taka nokkur dæmi um hvar mér finnst Siðmennt vera að fiska í gruggugu vatni í umræðu síðustu daga.

Spurning Sigurðar var þessi:

Hvað finnst þér Guðni Már um málflutning biskups og annarra starfsmanna kirkjunnar? Er kristilegt að fara svona með sannleikann?”

Svar mitt er:

Sigurður, mín persónulegu kynni af biskupi eru sú að þar fer afar vandaður maður sem ég ber fullt traust til. Ég þekki ekki hvaða forsendur hann gefur sér í ummælum um ykkur í Siðmennt, eða hvort blaðamaður hafi eitthvað mistúlkað orð hans. Dæmi um oftúlkanir blaðamanna, virðast þó vera til í umræðu liðinna daga. Ég hef aldrei efast um heilindi Karls og þekki hann ekki sem rógbera eða lygara. Að öðru leyti get ég ekki svarað fyrir ummæli hans eða annarra starfsmanna kirkjunnar. Ég skal hins vegar glaður svara fyrir öll mín eigin ummæli.

Hatrömm/ofsafengin viðbrögð?

Hinu er ekki að leyna að mér finnast Siðmenntarmenn vera farnir að vera nokkuð hatrammir/ofsafengnir ef þeir ætla að kæra þá niðurstöðu að foreldrum sé frjálst að biðja um leyfi frá skóla fyrir sín eigin börn, í ferð sem varðar þær lífsskoðanir sem barnið velur sér, með samþykki foreldranna. Eins og Siðmennt hyggst gera.

Ekki dytti mér í hug að kæra það ef foreldri einhvers hindúsks, múslima eða siðmenntarbarns bæði um leyfi í 1 eða 2 daga af 1800 daga skólagöngu sinni til að hlúa að þeim gildum sem þau aðhyllast.

Kannski myndi einhverjum finnast ég vera hatrammur ef ég hygðist kæra ferðina?

Kannski finndist einhverjum það ekki bera vott um umburðarlyndi.

Kannski hefði ég ekkert voðalega breytt bak ef ég lýsti því sem ofsóknum á mig ef einhverjum finndist ég ganga of langt með því að kæra lífssgildaferðir barna með samþykki foreldra.

Er ég að misskilja eða meinti varaformaður Siðmenntar eitthvað annað þegar haft er eftir honum í 24 stundum að dómstólaleiðin blasti við, nú þegar ljóst væri að menntamálaráðherra ætlaði ekki að amast við því að foreldrar fengju leyfi til að biðja um leyfi fyrir börnin sín í fermingarfræðsluferðir. Ferðirnar mættu hins vegar ekki lengur vera inná skóladagatalinu en yrðu að vera í góðu samráði foreldra, skóla og kirkju.

Ég virðist vera svo seinfær að ég skil ekki hvernig það skaðar trúlausar lífsskoðanir ykkar í Siðmennt að önnur börn fái leyfi í 1-2 daga til að fara í fræðsluferð um lífsgildin sem þau velja sér.

Litlu jólin -án nokkurs sem minnir á hið yfir þúsund ára gamla inntak þeirra

Einnig finnst mér það skrýtið, ef ég skil það rétt að það megi halda litlu jól, en alls ekki láta syngja sumar af fegurstu perlum íslenskrar ljóð og þjóðlagasögu. Jólasálma sem hafa lifað lengi með þjóðinni. Er þetta ekki ágætt tækifæri til kynnast aldagamalli menningu okkar rétt eins og jólasveinalögin birta þjóðtrúnna og menningu henni tengda?

Helgileikir virðast vera ótækir, jafnvel hættulegir, í augum siðmenntar, þó Sigurður Hólm hafi sagt þá mega vera í kennslufræðilegum tilgangi (sjá ummæli í síðustu færslu annállsins). Ég held þeir hafi einmitt verið það hingað til, alla vega í Ártúnsskóla þar sem ég var og þekki vel til.

Það felst nefnilega tækifæri í helgileiknum, kristnir foreldrar geta útskýrt þetta fyrir sínum börnum sem einn fegursta boðskap sem til er, en trúlausir eða önnur trúarbrögð sem goðsögu sem kristið fólk leggur trú á.

Það er ljóst að siðmennt vill helgileikina hins burt úr litlu jólunum ef marka má varaformanninn. Á því hefur hann hnykkt oftar en kírópraktor í umræðu liðina daga, það finnst mér sem fyrr segir bera vott um þröngsýni, því helgileikir eru að mínu viti flott kennslufræðilegt tæki til að kenna krökkum um hið kristna inntak jólanna. Alveg eins og leiknar helgisögur hindúa, eða múslima eru gott tækifæri til að kynna menningarheim þeirra. Það þarf nokkuð sterkan vilja til að sjá ekkert nema slæmt við helgileiki í skólum, hvað þá kristin helgileik. Þar sem við öll, trúuð sem trúlaus erum við sammála um að kristin fræðsla eigi að hafa forskot í íslensku samfélagi á menningarlegum grunni.

url: http://gudnimar.annall.is/2007-12-05/nokkur-ord-um-sidmennt-og-spurningu-sigurdar-holms/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Sigurður Hólm Gunnarsson @ 5/12/2007 08.35

Guðni segir:
„Sigurður, mín persónulegu kynni af biskupi eru sú að þar fer afar vandaður maður sem ég ber fullt traust til. Ég þekki ekki hvaða forsendur hann gefur sér í ummælum um ykkur í Siðmennt, eða hvort blaðamaður hafi eitthvað mistúlkað orð hans.“

Því miður er hér ekki aðeins verið að tala um eitt tilvik. Við höfum þurft að leiðrétta ítrekaðar fullyrðingar biskups um að við séum á móti kristni- og trúarbragðafræðslu í skólum. Alltaf skal hann koma aftur í fjölmiðla og halda sömu vitleysunni fram. Hér er því ekki um einangrað tilvik að ræða.
Því endurorða ég spurningu mína:

„Hvað finnst þér Guðni Már um málflutning biskups og annarra starfsmanna kirkjunnar? Er kristilegt að fara ítrekað með rangt mál (t.d. að Siðmennt sé á móti kristinfræðslu) þrátt fyrir að margoft sé búið að leiðrétta þá vitleysu?“
Annars vil ég svara þessu

Guðni segir:
„Hinu er ekki að leyna að mér finnast Siðmenntarmenn vera farnir að vera nokkuð hatrammir/ofsafengnir ef þeir ætla að kæra þá niðurstöðu að foreldrum sé frjálst að biðja um leyfi frá skóla fyrir sín eigin börn, í ferð sem varðar þær lífsskoðanir sem barnið velur sér, með samþykki foreldranna. Eins og Siðmennt hyggst gera.“

Hvaða vitleysa? Það er enginn á móti því að foreldrar geti sérstaklega sótt um frí fyrir börnin sín. Við höfum aðeins mótmælt því að fermingarfræðslan og fermingaferðalög eins trúfélags séu í stundaskrá og sem hluti af venjulegu námi innan skólans. Fermingarfræðsla eins trúfélags á ekki að ryðja burtu venjulegu skólastarfi allra í opinberum skólum.

Guðni Már @ 5/12/2007 13.13

Blessaður á ný Sigurður

Hvað finnst þér Guðni Már um málflutning biskups og annarra starfsmanna kirkjunnar? Er kristilegt að fara ítrekað með rangt mál (t.d. að Siðmennt sé á móti kristinfræðslu) þrátt fyrir að margoft sé búið að leiðrétta þá vitleysu?“

Nú þekki ég ekki nákvæm bréfaskipti þarna á milli eða á hvaða forsendum aðrir starfsmenn kirkjunnar láta ummæli sín falla. Kannski hefurykkar boðskapur ekki skilað sér nógu vel áfram. En ég skal taka dæmi frá eigin brjósti. Það er ekki langt síðan ég sá það fyrst á prenti að Siðmennt vill berjast fyrir því að kristin fræðsla skuli að hafa aukið vægi fram yfir önnur trúarbrögð á menningarsögulegum grunni íslenskrar þjóðar. Þetta hefur ekki verið tekið nógu skýrt fram hingað til ,og kom hvergi fram í því sem ég hafði lesið frá Siðmennt þangað til nýverið. Nú veit ég betur.

Ég treysti mér sjálfur til að fullyrða að Siðmennt virðist hafa horn í síðu kristinfræðslu og vera á móti henni, að mér sýnist, í sjálfsögðum en veigamiklum atriðum er lúta að menningu þjóðarinnar. Þið eruð til dæmis á móti kristinfræðslu í skólum, ef hún er sett fram með leikrænum hætti eða í formi söngva svo nærtækt dæmi sé tekið.

Nú spyr ég af því að mér finnst þetta óskýrt hjá ykkur, og þú mátt gjarnan koma þessu áfram til varaformanns siðmenntar.

Ef að kristin fræði eiga menningarsögulega að hafa aukið vægi eins og þið sjálf leggið til. Hvað er þá að því að helgileikur sem kynnir hið kristna inntak sé sýndur í kennslufræðilegum tilgangi á litlu jólunum? Hvað er að því að börnum séu kennd lög sem tengjast jólamenningu þjóðarinnar órjúfanlegum böndum, líkt og Heims um ból, Þá nýfæddur Jesús, eða Bjart er yfir Betlehem svo dæmi séu tekin. Er einmitt ekki upplagt að kenna þessa söngva með tilliti til menningarsögu þjóðarinnar? Má syngja þá í tónmennt en ekki á litlu jólunum eða má ekki syngja þá innan skólans yfir höfuð? Hvað sjáið þið að þessu?

Ekki ætla ég að berjast fyrir því að Nú er Gunna á nýju skónum verði hent út úr jólaböllum í skólum þar sem það hentar ekki lífsskoðunum mínum um kynhlutverk, sökum þess að textinn málar upp kynhlutverk sem ég vil ekki ala barnið mitt upp í. Ég gríp frekar tækifærið og upplýsi um hvernig kynhlutverk okkar voru í eina tíð og eru raunar víða enn.

Hvað varðar athugasemd þína:

Hvaða vitleysa? Það er enginn á móti því að foreldrar geti sérstaklega sótt um frí fyrir börnin sín. Við höfum aðeins mótmælt því að fermingarfræðslan og fermingaferðalög eins trúfélags séu í stundaskrá og sem hluti af venjulegu námi innan skólanns. Fermingarfræðsla eins trúfélags á ekki að ryðja burtu venjulegu skólastarfi allra í opinberum skólum.

Það kemur skýrt fram Sigurður í svari ráðherra að fermingarfræðslan verði ekki lengur sett á stundaskrá af skólanum, að valið sé foreldranna en málið unnið í samstarfi við kirkjuna eðli málsins samkvæmt. Þá ber að halda því til haga að þetta er ekki hluti af hinu venjulega námi, heldur alfarið ferð á vegum kirkjunnar, þangað fer enginn tilneyddur. Afstaða kirkjunnar er alveg klár og áréttuð hér í góðu svari.

Við það má bæta að hér er fjarri því um eitt trúfélag að ræða því að minnsta kosti fjögur trúfélög hafa sama háttinn á svo ég viti til, öllum öðrum er það líka frjálst. Tal um að ryðja burtu venjulegu skólastarfi allra í opinberum skólum er byggt á veikum grunni, ef fólk má velja um frí fyrir börnin sín vegna rétta, trúarhátíða utan almanaks, íþróttaferða, tónlistarflutnings, utanlandsferða eða í annað sem það kýs…

…af hverju að amast þá félag, sem leggur uppúr umburðarlyndi, við því að lífsgildaferðir njóti sannmælis?

Hildur Edda @ 7/12/2007 09.48

Hvernig væri að menn hættu að hengja sig í því hvort einhverjir (trúmenn eða trúlausir!) séu hatrammir eða ofsafengnir eða þar fram eftir götunum? Gengur fólki ekki gott eitt til?

Annars finnst mér grein Sigmundar Ernis sem þú vísar í hérna að ofan ekki góð. Mér finnst hann falla ofan í þá gryfju að stilla þessari deilu upp eins og barátta góðs og ills -sem hún er auðvitað ekki!


© guðnimár.annáll.is · Færslur · Ummæli