guðnimár.annáll.is

Annálleinkahúmorgamalt og gotthugleiðingar í dagsins iðuskemmtilegttrúmál

« Góðar fréttir og illa skrifaðar fréttir… · Heim · Nokkur orð um Siðmennt og spurningu Sigurðar Hólms »

Frábært Silfur í gær, eru ,,herskáir” trúleysingjar að mýkjast?

Guðni Már @ 14.33 3/12/07

Ég fylgdist með silfri Egils í gær, þar fór fram góð og yfirveguð umræða um aðkomu kirkjunnar skólastofnunum. Umræðan er þörf enda mörgu sem þarf að velta upp og ólíkar skoðanir sem fólk hefur. Matthías Ásgeirsson formaður Vantrúar kom vel fyrir í þættinum og fannst mér gaman að sjá hversu hófstilltur hann var í framkomu sinni, enda hefur oft gustað um ýmis stór orð sem hann eða hópurinn sem hann er í forsvari fyrir hefur látið falla.

Ég hvet ykkur endilega til að horfa á þáttinn en hann má skoða hér á vefsvæði RÚV.

Sum ummæli Matthíasar þóttu mér fyrir margra sakir áhugaverð og sum vörpuðu nýju ljósi á málin. Ég hrósaði Matthíasi fyrir frammistöðuna á heimasíðu hans, og bætti einnig við mínum vangaveltum sem kristins foreldris og prests. Þar sem þetta var lengsta komment sem ég hef nokkru sinni skrifað á bloggsíðu tel ég rétt að vista það líka hér á mínu eigin vefsvæði:

Heill og sæll Matthías

Fyrir það fyrsta þá verð ég líkt og Jón Stefánsson að hrósa Agli fyrir að fá þig í sjónvarpið, sumt af því sem þú hafðir sagt og gefið í skyn um hann er þess eðlis að ekki hefðu allir viljað bjóða þér í þáttinn til sín. Uppnefnið “Krulli kverúlant” var augljóslega sett fram í barnalegum hroka eða bestafalli í gremju. Mér finnst Egill Helgason vera maður meiri fyrir að hafa boðið þér í þáttinn og er þetta glöggt dæmi um það hvers vegna hann var kosinn sjónvarpsmaður ársins.

En þú átt líka hrós skilið fyrir góða frammistöðu í þættinum og var samtal ykkar Jóns Magnússonar fínt innlegg inn í þarfa umræðu. Þú komst mjög vel fyrir í sjónvarpinu og virkaðir á mig eins og fólkið hér að ofan lýsir þér, sem skynsamur og hófstilltur trúleysingi, en ekki sá herskái og á köflum afar hrokafulli trúleysingi sem ég hafði upplifað þig áður í gegnum skrif á vefnum.

Nokkur ummæli úr þínum munni fundust mér athyglisverð, vegna þess að ég hefði aldrei veðjað á þig halda þeim fram fyrir þáttinn:

“Ekkert að kristnum gildum” alveg sammála þér

“ég hvet foreldra til að fara með börnin sín í sunnudagaskóla” nota þetta einmitt í öllum skírnum og oftar.

“Vissulega eru jólin kristin hátíð ég ætla ekkert að gera lítið úr því…” þessi ummæli fundust mér sérstaklega áhugaverð enda U-beygja frá einu orðaskiptunum sem við tveir höfum átt um trúmál, þegar ég mótmælti færslu þinni href=”http://”>,,Hvað koma jólin Jesú við?” http://www.orvitinn.com/2003/12/02/15.22/
og þú svaraðir:
Ég spyr mig líka fyrst þú vilt ekki gera lítið úr því að jólin séu kristin hátíð, hvort þú sért sammála Siðmennt í að litlu jól í skóla með helgileik og jólasálmum séu ótæk? Er það ekki að gera lítið úr því að þetta sé kristin hátíð? Er það einmitt ekki að ómerkja hið kristna inntak? Ekki ósvipað og að ég myndi segja að ég vilji ekki gera lítið úr því að Eurovision sé söngkeppni en mér finnist samt ótækt að Eurovision sé haldin með sönglögum?

“það er ENGINN að mótmæla því að trúarbragðafræðsla sé í skólum með áherslu á kristni” þetta vissi ég ekki en er gott er að fá það staðfest, síðast þegar ég vissi er enn þónokkur fjöldi sem vill henda kristinfræði alveg útúr skólum, var reyndar kunnugt um að þú og ályktanir siðmenntar séuð ekki á meðal þeirra, en taldi fullvíst að þó nokkrir einstaklingar í báðum hópum séu þeirrar skoðunar að enginn kristinfræði séu draumastaðan.

“20-25% Íslendinga eru trúlausir”
Þetta fannst mér fróðleg fullyrðing, það liggur ljóst fyrir að einhver hluti þeirra, yfir 90% Íslendinga sem eru skráðir í kristin trúfélög, blandar trúnni mjög og velur það sem þeim finnst fallegt, að Kristur sé frelsari mannkyns er því miður ekki skoðun nema rúmlega helmings þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni og hvetur okkur þjóðkirkjupresta til að halda þeim góða vonarboðskap enn betur á lofti. Hinu er ekki að leyna að mikill meirihluti íslendinga og ég vil fullyrða í ljósi reynslu minnar og annarra að yfir 90% vill gjarnan að sunnudagaskólaboðskapnum sé haldið að börnum þeirra. Þú minntist til að mynda ekkert á könnunina sem var gerð meðal foreldra í leikskólanum hjá þínum dætrum þar sem allir foreldrar, nema tveggja barna, kusu að þeirra barn fengi þjónustu og kristinfræðikennslu/trúboð prestins. Hvað voru margir foreldrar í skólanum? Ljóst er að vel yfir 90% vildu gjarnan fá prestinn. Skoðanakönnun, þegar mikil reynsla var komin á heimsóknir prestsins sýndu líka að yfir 90% foreldra voru mjög ánægð, eða ánægð með prestinn. Allir sem talað var við í fréttunum voru líka þessarar skoðunar. Miðað við þínar tölur um 20-25% trúleysingja og að því gefnu að Breiðholt gefi nokkuð jafnt úrtak af íslenskri þjóð, má fullyrða með nokkurri vissu að góður helmingur trúleysingja sé mjög ánægður með leikskólaheimsóknir prestsins! Getur verið að þegar Bolli talar um að fámennur hópur trúleysingja sé að stoppa heimsóknirnar sé hann að vísa í kannanir á leikskólum Breiðholts þar sem 90% foreldra eru ánægðir og svo hins vegar hávær mótmæli þín? Er hann að fara með rangt mál, þegar hann talar um fámennan hóp, með tilvísun til könnunarinnar?

Annað sem mér fannst áhugavert við viðtalið var þegar Egill sagði: Þið í Vantrú boðið trúlausan heim: og þú svaraðir: Nei alls ekki! Missteigstu þig ekki sem formaður Vantrúar?, eruð þið hættir að eiga útópíu drauminn um ekkert meira en mannsandann, heim án allra trúariðkunar? Er það ekki ykkar stærsta köllun í Vantrú að berjast fyrir því í að öll “hindurvitni” hverfi? Eruð þið hættir að boða fagnaðarerindið um trúlausan heim?

Þú lýstir því líka á hjartnæman hátt í þættinum hvernig þér og þínum börnum var mismunað. Ég tek undir að það er leiðinlegt að draga einn alveg út úr hóp, en það eru til fleiri lausnir. Ég skal nefna dæmi: Þar sem ég var að vinna í einni sókn þjóðkirkjunnar tókum við nokkur sumur á móti stórum barnahópum úr íþróttafélaginu í hverfinu. Ég tók ekki í mál að það yrði gert nema að börnin hefðu leyfi fyrir því að koma í kirkjunna, 3 frekar en 4 börn af rúmlega 340 máttu ekki koma, íþróttafélagið leysti það einfaldlega með að skipta í tvo hópa, annar kom í kirkjuna meðan hinn fór í leiki og brandarastund, börnin sem ekki máttu koma í kirkjuna fengu því tvöfalda brandara og leikstund og hin 340 fengu brandarastund og trúboð alveg eins og foreldrar þeirra vildu. Væri ekki alveg hægt að leysa þetta svona? Er eitthvað vandræðalegt við það?

Þú talaðir um að í skólakerfinu viljir þú að allir séu alltaf saman að læra. Á minni skólagöngu var ég oft látin velja um hitt og þetta og var ekki alltaf með öllum í einu að læra, við máttum velja smíðar eða sauma og ýmislegt annað í samfélagsgreinum. Oft valdi ég það sem foreldrar mínir lögðu til og stundum völdu þau fyrir mig, það olli mér aldrei sérstöku hugarangri.

Annað sem ég vil forvitnast um, ég hef ekki enn lent í svipaðri reynslu og þú með mitt barn, en ég skal trúa því að hún sé sár, ég vil alls ekki gera lítið úr því. En hefur þessi sára reynsla aldrei hvatt þig til að berjast fyrir afnámi svínakjöts úr grunnskólum landsins. Börnum múslima er mismunað á trúarlegum forsendum, oft í mánuði þegar kokkar skólanna elda svínakjöt, þeim er bara boðið eitthvað annað, þau eru gerð öðruvísi. Börnum þeirra kristnu einstaklinga sem telja jólasveininn handbendi hins illa, er mismunað um hver jól þegar meirihluti foreldra ákveður að hafa jólasvein á jólaböllum í leikskólum og skólum, gegn vilja þessara einstaklinga.

Getur kannski verið að stundum verði foreldrar líka að taka ábyrgð á lífskoðunum sínum fyrir börn sín og að í því geti falist tækifæri um að ræða hvers vegna þau séu öðruvísi og hvernig ólíkar lífsskoðanir eru? Ég el drenginn minn upp við ýmsar kristnar venjur sem munu einmitt kalla á það í framtíðinni að ég setjist niður með honum og útskýri að svona sé þetta ekki hjá öllum, heldur séu þetta þær lífsskoðanir sem ég vil miðla honum, en að hann muni jafnvel eiga þess von að vera alleinn á báti, útaf þessum lífsskoðunum, þangað til að hann hefur sjálfur vit á að velja eða hafna því sem ég og móðir hans höfum kennt honum.

með vinsemd

Guðni Már Harðarson

url: http://gudnimar.annall.is/2007-12-03/frabaert-silfur-i-gaer-eru-herskair%e2%80%9d-truleysingjar-ad-mykjast/

Athugasemdir

Fjöldi 23, nýjasta neðst

Stefán Einar @ 3/12/2007 15.32

Þegar ég horfði á framgöngu Matthíasar í gær kom aðeins eitt upp í huga mér: “úlfur í sauðagæru”.
Ég held að réttast sé að taka saman skrif Matthíasar um kirkjuna, þjóna hennar, klámið sem hann virðist vera með á heilanum og ýmislegt fleira og birta opinberlega og spyrja fólk hvort þessi maður hafi nokkuð í það að gera að fjalla um uppfræðslu barna í landinu. Hann hefur löngu gerst ómerkingur í opinberri umræðu og mér finnst ámælisvert af Agli Helgasyni að bjóða mönnum af þessu sauðahúsi í þáttinn. Menn hljóta á einhverjum tímapunkti að mála sig út í horn!

Annars þakka ég þér þessa góðu færslu Guðni. Þú opinberar þennan mann með ágætum hætti og það var löngu kominn tími til þess.

Flosi Þorgeirsson @ 3/12/2007 16.29

Nú er ég hvorki kristinn né trúlaus en mér fannst grein Matthíasar í Fréttablaðinu vera stórgóð og þarft innlegg í nauðsynlegu umræðu um réttmæti trúboðs í skólum. Í raun finnst mér eins og Stefán sé að lýsa allt öðrum manni en þeim er skrifaði áðurnefnda grein og hefur skrifað ötullega á vef Vantrúar.

Matti @ 3/12/2007 17.57

Athugasemd Stefáns Einars lýsir hans innri manni en segir lítið um mig. Ég hef sagt í athugasemd á minni síðu að ég muni svara Guðna síðar enda athugasemd hans í lengra lagi og inniheldur nokkrar rangfærslur sem ég vil svara vandlega svo ekki verði frekar misskilningur.

Ég kannast ekki við að ég sé með klám á heilanum en játa að það kemur fyrir að ég skoða klám. Mér þykir það leiðinlegt ef sú synd dæmir mig úr leik í opinberri umræðu. Kannski er Stefán að ruglast, ég hef nefnilega sagt að ég sé með kynlíf á heilanum.

Ég játa það líka að margt ljótt hef ég sagt um kirkjunnar þjóna, sumu sé ég eftir en annað stend ég við. En það sem ég hef skrifað er varla verra en sumt af því sem Karl Sigurbjörnson hefur sagt um trúleysingja hér á landi. Ég hef það þó mér til varnar að stundum var mér heitt í hamsi vegna þess að mér þótti trúfélag vera farið að ráðast inn í fjölskyldulíf mitt.

Ég held ég hafi meira um uppfræðslu barna að segja en Stefán Einar, ég hef alið upp börn í tólf ár.

Mikið vildi ég svo að þessi umræða myndi snúast um eitthvað annað en persónu mína. Samtalið verður til lítils ef það á að vera á þessum nótunum.

Það hefur komið fram að Stefáni Einari finnst ég “plága” og “óværa”. Er það ekki nóg.

Stefán Einar @ 3/12/2007 19.26

Matthías Ásgeirsson hefur komið fram með þeim hætti í netheimum að hann hefur ekkert í sjónvarpsviðtöl að gera. Nú síðast neyddist ég til þess að stefna honum vegna svigurmæla af þeirri gerð að ekki var hægt að sitja aðgerðalaus hjá.

Þær hugmyndir sem birtust í þeim skrifum hans eru af því tagi að ég tel manninn ekki hæfan til rökrænnar orðræðu og ég verð að viðurkenna að ég efast um getu hans til þess að ala upp börn. Fólk sem býr yfir slíku dómgreindarleysi sem hann að birta viðlíka færslur hlýtur að eiga erfitt með að dæma um aðra þætti er lúta að siðgæði og siðferði sem nauðsynlegt er þegar barnauppeldi er annars vegar.

Skrifum Matthíasar er haldið vel til haga og það væri þarft verk að koma þeim á framfæri, m.a. viðbjóðslegri grein hans er hann síðar fjarlægði vegna tilmæla frá lögfræðingi mínum. Það myndi varpa ljósi á hann og gera hann að ómerkingi í augum allra heilbrigðra einstaklinga.

Sigurður Hólm Gunnarsson @ 3/12/2007 20.02

Satt og logið um stefnu Siðmenntar

Ég hef ákveðið að taka saman á einn stað flestar (en ekki allar) þær greinar sem ég hef skrifað vegna rangfærslna um Siðmennt. Satt að segja er ég orðin þreyttur á að hrekja sömu rangfærslurnar ofan í oft sama fólkið aftur og aftur. Ég hvet lesendur því að lesa þessar greinar fyrst og gagnrýna svo stefnu Siðmenntar. Það fer ótrúlega mikill tími í að svara fyrir stefnu sem Siðmennt hefur alls ekki.

http://www.skodun.is/archives/2007/01/12/satt_og_logid_um_stefnu_sidmenntar.php

Matti @ 3/12/2007 20.45

Afskaplega þykja mér þessi skrif Stefáns Einars ómakleg.

Ég játa að pistill minn sem átti að vara grín og ádeila var vanhugsaður enda baðst ég afsökunar. Það er rangt að Stefán Einar hafi stefnt mér. Hann hótaði að stefna mér en dugað hefði að senda mér tölvupóst. Frekari hótarnir Stefáns Einars um birtingu eru hjákátlegar. Stefán Einar er augljóslega ekki maður sátta.

Ég verð að játa að mér hugnast ekki hve Stefán virðist upptekinn af persónu minni. Dylgjur um hæfi mitt sem foreldris eru að mínu mati ekki við hæfi og satt að segja frekar skammarlegar. Eins og ég sagði, þetta lýsir hans innri manni en segir ekkert um mig.

Guðni Már @ 3/12/2007 23.22

Ekki ætla ég að blanda mér í deilur Matta og Stefáns, enda snúa þær ekki að mér, en mig langar að spyrja Sigurð Hólm Gunnarsson stjórnarmann í Siðmennt, hvort að hann sé með sinni tilvísun að meina að ég hafi logið uppá Siðmennt?

Eina sem ég hef skrifað um Siðmennt um ævina er að finna í færslunni að ofan, þar spyr ég Matta:

“Ég spyr mig líka fyrst þú vilt ekki gera lítið úr því að jólin séu kristin hátíð, hvort þú sért sammála Siðmennt í að litlu jól í skóla með helgileik og jólasálmum séu ótæk? Er það ekki að gera lítið úr því að þetta sé kristin hátíð? Er það einmitt ekki að ómerkja hið kristna inntak? Ekki ósvipað og að ég myndi segja að ég vilji ekki gera lítið úr því að Eurovision sé söngkeppni en mér finnist samt ótækt að Eurovision sé haldin með sönglögum?”

Endilega leiðréttu mig ef ég lýg uppá ykkur Sigurður, en sagði ekki Björn Jónsson varaformaður Siðmenntar í 24stundum á laugardagin að það væri ykkar skoðun að ,,litlu jólin megi halda án trúboðs og helgileikja”

Er ósamræmi milli orða minna og orða varaformannsins?

Einar @ 3/12/2007 23.56

Ég hef nú alltaf litið á sjálfan mig sem trúaðan, og hef meir að segja einstaka sinnum fett fingur út í Vantrú fyrir þeirra framsetningu á Kristindómi. En þegar yngsti svartstakkur íslands veður fram í skjóli lögfræðingsmenntaðra vina sinna, sjálfur siðfræðingurinn, og hefur uppi þvílíkan hroðbjóð, þá hálfpartinn fallast mér hendur. Mér sýnist Stefán koma hér fram með brugnu sverði; vonandi rámar hann í það hvernig fer fyrir slíku fólki (samkvæmt hans lífsregluriti). Mér sýnist Stefáni betur borgið í “viðskiptasiðferði” en lífsleikni. Ég vona að Stefán átti sig á því að allt sem hann skrifar er vitnisburður um hans persónu, og að þetta mun ekki teljast honum til tekna þegar fram í sækir. Stefán virðist ekki átta sig á að nú er 21. öldin; illa rökstuddar formælingar skila sér ekki í óttablandinni lotningu alþýðunnar.

með friði
Einar

Óli Gneisti @ 4/12/2007 00.04

Ég er nokkuð viss um að Siggi sé bara að vísa almennt í umræðuna.

Sigurður Hólm Gunnarsson @ 4/12/2007 08.24

Biskup Þjóðkirkunnar og fjölmargir prestar hafa því miður gerst sekir um að ljúga um stefnu Siðmenntar. Því er haldið fram aftur og aftur að Siðmennt sé á móti kennslu í trúarbrögðum. Biskup heldur samt áfram að fullyrða að Siðmennt berjist gegn trúarbragðafræðslu. Það hentar honum að ljúga (sorry en ég get ekki kallað orð hans annað eftir allar leiðréttingarnar) og ég er ekki að sjá að hann biðji okkur afsökunnar í fjölmiðlum (þó það væri væntanlega kristilegt af honum).

En ja. Ef litlu jólin eiga að snúast um bænir og lof á Jesú og Guð þá á eiga þau ekki heima í opinberum skólum. Ef litlu jólin eru almenn hátíð (eins og ég þekki úr skólum) þar sem krakkar skiptast á pökkum og jólakortum, hitta jólasveina og ganga í kringum jólatréð þá er það að sjálfsögðu í lagi. Eins og alltaf erum við á móti trúboði og trúariðkun ekki fræðslu.

Guðni Már @ 4/12/2007 08.30

Það getur vel verið Óli, að hér sé bara um almenna vísun að ræða, en formálinn er þess eðlis að erfitt er að skilja annað en hann sé þreyttur á upplognum sökum, fólks sem fer með rangfærslur um Siðmennt trekk í trekk. Slíkt kannast ég ekki við og finnst vísunin með þessum formála heldur vafasöm, en fyrir hana verður Sigurður að svara.

Guðni Már @ 4/12/2007 08.36

Úpps, sem hann hefur nú gert ;-) Ég sammála honum um að litlu jólin eigi að hafa pakka og jólasveina en á minni skólagöngu var helgileikurinn líka órjúfanlegur þáttur í litlu jólunum. Er það ekki kennslufræðilega í góðu lagi að kenna börnum sögunna á bakvið jólahátíðina í núverandi mynd með því að fá að leika hana? Þetta er sagan sem jólin snúast um, fyrir sumum er hún goðsaga öðrum birtingarmynd sannleikans. Hvað er hættulegt við að leika hana?

Sigurður Hólm Gunnarsson @ 4/12/2007 11.24

Hvað finnst þér Guðni Már um málflutning biskups og annarra starfsmanna kirkjunnar? Er kristilegt að fara svona með sannleikann?

Matti @ 4/12/2007 11.25

Ekki ætla ég að blanda mér í deilur Matta og Stefáns

Hvaða “deilur”? Hér vegur Stefán Einar að persónu minni á bloggsíðu þinni. Það er ekkert deilt.

Þú sem eigandi síðunnar mættir hafa einhverjar athugasemdir við slíkan málflutning. Ég geri líka ráð fyrir að þú kannist við Stefán Einar, gætir hugsanlega rætt við hann. Nema þér þyki þetta góð innlegg í umræðuna.

Óli Gneisti @ 4/12/2007 13.22

Ég hef séð mörg sakleysisleg komment fjúka út af Annál, sérstaklega sakleysisleg miðað við málflutning Stefáns. Hvað var það aftur sem þeir segja, ekki það sama hvort það er Jón eða næstum-því-séra Stefán?

Guðni Már @ 4/12/2007 13.27

Sælir, Sigurður spurningin ber keim af red herring eða smjörklípu og tengist málflutningi mínum í færslu minni eða athugasemdum ekki neitt. Hins vegar skal ég svara spurningunni síðar í dag í nýrr færslu.

Og Matti, ég veit þú ætlar að svara mér og vona ég að það svar komi sem fyrst enda segir þú mig fara með rangfærslur sem var ekki meiningin. Hvað varðar Stefán þá þekki Stefán ágætlega og læt honum sjálfum eftir að bera ábyrgð á sínum orðum, hann er fullfær um það, við Stefán erum sammála um margt en ósammála um annað. Ég upplifði ykkur vera deila um tölvupóstsamskipti sem send voru og ummæli ykkar á milli. Ég tengist þeim orðaskiptum ekkert og vel að blanda mér ekki í þau. Hvað varðar orðanotkunina “deilur” hefði verið heppilegra að segja

,,ekki ætla ég að blanda mér í orðaskipti Matta og Stefáns”

Guðni Már @ 4/12/2007 13.28

og Óli ég hef aldrei hent ummælum út og hyggst ekki gera það ;-)

Stefán Einar @ 4/12/2007 17.34

Ég held að það sé rétt af mér að koma á framfæri ákveðinni afsökunarbeiðni af minni hálfu. Ég tel að ummæli mín um ætlaða getu Matthíasar Ásgeirssonar til þess að ala upp börn hafi verið yfir strikið og raunar vanhugsuð yfirlýsing af minni hálfu enda þekki ég ekkert til fjölskyldulífs Matthíasar. Þar varð mér á í messunni og því rétt að taka þau orð aftur.

Hins vegar finnast mér skrif Matthíasar í miklum meginatriðum afar ámælisverð og verð að viðurkenna að oft á tíðum blöskrar mér þegar ég les það sem hann lætur út úr sér og þykir miður að hann skuli ekki sjá að sér í þeim efnum. Það gefur mér hins vegar ekki rétt til þess að vega að fjölskyldu hans. Ég vona að það hafi ég ekki gert en ummæli mín í þá átt gátu hæglega farið fyrir brjóstið á fólki.

Sigurður Hólm Gunnarsson @ 4/12/2007 18.01

“Er það ekki kennslufræðilega í góðu lagi að kenna börnum sögunna á bakvið jólahátíðina í núverandi mynd með því að fá að leika hana?”

Jú auðvitað. Svo lengi sem það er gert í kennslufræðilegum tilgangi. Er það ekki augljóst af málflutningi Siðmenntar?

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 4/12/2007 18.12

“Ekkert að kristnum gildum” alveg sammála þér

Nú get ég ekki lesið hugsanir Matta, en ég held að þarna sé hann klárlega að vísa til þess að fólk tengir “kristin gildi” almennt við hluti eins og kærleika og eitthvað gott, þó svo að það hafi ekki endilega neitt með kristni að gera, t.d. umburðarlyndi. Svo gleymirðu því að Egill spurði “Hvað er að þessum kristnu gildum?”

“ég hvet foreldra til að fara með börnin sín í sunnudagaskóla” nota þetta einmitt í öllum skírnum og oftar.

Eins og kemur fram í Silfri Egils, þá er hann að hvetja fólk sem vill endilega fá þessa fræðslu, að fara í sunnudagaskólann. Hvar hefur Matti áður talað gegn því að kristið fólk fái að láta presta stunda kristniboð gegn börnum þeirra í kirkjunni?

“Vissulega eru jólin kristin hátíð ég ætla ekkert að gera lítið úr því…”

Auðvitað heldur kristið fólk upp á kristna hátíð. En eins og Matti sagði um leið og hann sagði þessi orð sem þú vitnar í, þá eru jólin líka “hund-heiðin”. Í bloggfærslunni sem þú vísar á vísar Matti á grein sem mér sýnist fjalla um það að jólin séu upphaflega heiðin hátíð og í athugasemd segir hann að jólin hafi auðvitað eitthvað með Jesú og kristni að gera.

“það er ENGINN að mótmæla því að trúarbragðafræðsla sé í skólum með áherslu á kristni”

Mér finnst undarlegt að þú vissir þetta ekki. Ég þekki ekki neinn sem er á þeirri skoðun að börn verði ekki frædd um trúarbrögð í skólum. Hvers vegna telurðu þig vita að þó nokkur fjöldi vilji ekki fræða börn um trúarbrögð?

Hinu er ekki að leyna að mikill meirihluti íslendinga og ég vil fullyrða í ljósi reynslu minnar og annarra að yfir 90% vill gjarnan að sunnudagaskólaboðskapnum sé haldið að börnum þeirra.

Nú er auðvitað spurning hvað “sunnudagaskólaboðskapurinn” er. Ég efast um að 90% þjóðarinnar vilji að kristniboð sé stundað í opinberum skólum.

Getur verið að þegar Bolli talar um að fámennur hópur trúleysingja sé að stoppa heimsóknirnar sé hann að vísa í kannanir á leikskólum Breiðholts þar sem 90% foreldra eru ánægðir og svo hins vegar hávær mótmæli þín? Er hann að fara með rangt mál, þegar hann talar um fámennan hóp, með tilvísun til könnunarinnar?

Þegar Matti vísaði á þessar tölur var hann ekki að ræða um fullyrðingar Bolla, heldur þau “rök” Jóns Magnússonar að Íslendingar væru að meirihluta kristin þjóð. Að minnsta kosti man ég ekki eftir því að hann hafi minnst á þessi ummæli Bolla.

Annað sem mér fannst áhugavert við viðtalið var þegar Egill sagði: Þið í Vantrú boðið trúlausan heim: og þú svaraðir: Nei alls ekki! Missteigstu þig ekki sem formaður Vantrúar?, eruð þið hættir að eiga útópíu drauminn um ekkert meira en mannsandann, heim án allra trúariðkunar? Er það ekki ykkar stærsta köllun í Vantrú að berjast fyrir því í að öll “hindurvitni” hverfi? Eruð þið hættir að boða fagnaðarerindið um trúlausan heim?

Nú veit ég ekki hvað þetta þýddi. En í næstu setningu sagði hann að hann teldi heiminn vera betri án trúarbragða.

Sigurður Hólm Gunnarsson @ 4/12/2007 20.50

Annars bíð ég spenntur Guðni eftir því að þú svarir spurningu minni í nýrri færslu sem þú ætlar að birta í dag/kvöld.

Spurningin var:
“Hvað finnst þér Guðni Már um málflutning biskups og annarra starfsmanna kirkjunnar? Er kristilegt að fara svona með sannleikann?”

Birgir Baldursson @ 4/12/2007 22.16

Stefán Einar segir:

„Hins vegar finnast mér skrif Matthíasar í miklum meginatriðum afar ámælisverð og verð að viðurkenna að oft á tíðum blöskrar mér þegar ég les það sem hann lætur út úr sér og þykir miður að hann skuli ekki sjá að sér í þeim efnum.“

Þú mátt velta því fyrir þér hvort þetta segi meira um Matta eða sjálfan þig og þína eigin teprulegu hneykslunargirni.

Guðni Már @ 4/12/2007 23.35

Sælir félagar takk fyrir svörin, ég hef ekki verið við tölvuna síðan um kvöldmatarleytið, veikindi á heimilinu og svo að vinna. En ég þakka Hjalta fyrir málefnalegar athugasemdir sem ég svara einhvern tímann á morgun, ég var búin að lofa Sigurði svari sem kemur hér rétt á eftir í nýrri færslu.

En ég hlýt að gleðjast við svari Sigurðar við spurningunni:

Er það ekki kennslufræðilega í góðu lagi að kenna börnum sögunna á bakvið jólahátíðina í núverandi mynd með því að fá að leika hana?”

sem var:

Jú auðvitað. Svo lengi sem það er gert í kennslufræðilegum tilgangi. Er það ekki augljóst af málflutningi Siðmenntar?

mitt svar við því er: Nei, ekki hef ég talið það svo augljóst þar sem varaformaður Siðmenntar segir að helgileiki megi ekki sýna á litlu jólunum. Á því hefur hann hnykkt oftar en kírópraktor, það finnst mér þröngsýni því helgileikir eru flott kennslufræðilegt tæki til að kenna krökkum um hið kristna inntak jólanna. Alveg eins og leiknar helgisögur hindúa, eða múslima eru gott tækifæri til að kynna menningarheim þeirra. Það þarf nokkuð sterkan vilja til að sjá ekkert nema slæmt við helgileiki leiki í skólum, hvað þá kristinn helgileik þar sem við öll erum við sammála um að kristin fræðsla eigi að hafa forskot á menningarlegum grunni.


© guðnimár.annáll.is · Færslur · Ummæli