guðnimár.annáll.is

Annálleinkahúmorgamalt og gotthugleiðingar í dagsins iðuskemmtilegttrúmál

« Vandlátar endur… · Heim · Góðar fréttir og illa skrifaðar fréttir… »

Hvað er eiginlega smjörklípa?

Guðni Már @ 20.38 6/11/07

Í ljósi orðræðu dagsins þá verð ég að upplýsa um vankunnáttu mína, hún snýr að orðinu smjörklípa. Þetta orð kemur nokkuð reglulega fyrir í pólítíkinni og Gísli Marteinn fullyrðir að Björn Ingi sé konungur smjörklípunnar, ég skil bara ekkert í þessu orði en dettur alltaf í hug þegar mamma var að gera afmæliskremið á súkkulaðikökuna þegar ég var lítill, þá notaði hún smjörklípu og ég fékk að borða afganginn…

Ég þykist samt nokkuð viss um að Gísli hafi ekki verið að biðja Björn Inga um að baka köku fyrir borgarstjórn.

Getur einhver útskýrt á mannamáli hvað smjörklípa er?

P.s. ég veit að Davíð Oddsson byrjaði að nota þetta orð og þetta snýst eitthvað um að beina umræðunni eitthvað annað eða eitthvað svoleiðis… en svo fer ég bara að huga súkkulaðikökuna hennar mömmu mmmm…

url: http://gudnimar.annall.is/2007-11-06/hvad-er-eiginlega-smjorklipa/

Athugasemdir

Fjöldi 9, nýjasta neðst

Birgir Baldursson @ 7/11/2007 00.32

Þetta er víst ákveðin útgáfa af Red Herring, nebblega að koma með alls óskyldar árásir á gagnrýnanda sinn svo öll hans orka fari í að bera af sér sakir, í stað þess að fá næði til að halda málflutningi sínum til streitu. Stefán Einar er búinn að vera duglegur við þetta að undanförnu og við fórnarlömbin féllum algerlega í gryfjuna.

Birgir Baldursson @ 7/11/2007 00.36

Úbbs slóðin átti að vera http://stefani.blog.is

Hildur Edda @ 7/11/2007 10.40

Mig minnir að það hafi verið Davíð Oddsson sem kom fyrst fram með þetta orð opinberlega og í kjölfarið fóru allir að röfla um smjörklípur hist og her. En þar sem ég sá ekki viðtalið við Doddsson þegar hann minntist á þetta hafði ég til að byrja með ekki hugmynd um hvað væri verið að tala um fyrr en það var útskýrt sérstaklega fyrir mér. Hið sama gildir greinilega um þig!

Ólöf I. Davíðsdottir @ 7/11/2007 11.31

Rámar í frásögn manns af sendiför milli bæja í æsku fyrir margt löngu. Ekki var við komandi að senda hann til baka án viðurgjörnings. Húsfreyja tók hann inn í búr, sótti þar flatköku og kleip svo af smjörstykki með fingrunum. Svo smurði hún smjörinu með þumlinum á flatkökuna. Maðurinn sagði að sér hefði verið starsýnt á sorgarröndina undir þumalfingursnöglinni og ekki langað í flatkökuna fyrir vikið. Húsfreyja stóð hins vegar hreykin yfir honum meðan hann sporðrenndi flatkökunni hraðar en nokkrum öðru sem hann hafði í sig látið. Illu er best aflokið.

Gunnlaugur @ 7/11/2007 12.45

Hér hefur fólk svarað án þess að vita okkuð um uppruna þessa orðalags að því er séð verður, nema að tengja það við Davíð. Ég man ekki betur en þetta hafi verið svo að Davíð hafði í sjónvarpsviðtali lýst því að móðir hans hefði notað þá aðferð þegar kisan á heimilinu lét ófriðlega að að klína á hana smjörklípu og hafi kötturinn þá orðið svo upptekinn að hreinsa sig að ekki hefði annað komist að hjá honum og fiður komist á meðan á hreinsuninni stóð sem gat tekið býsna langan tíma. Þetta notaði Davíð svo í yfirfærðri merkingu um það að þegar menn lentu í vondri stöðu þá klíndu þeir einhverju á andstæðinginn til að gera hann upptekinn við að verja sig. Fín samlíking hjá hinum orðheppna manni Davíð Oddssyni. Þetta orð “smjörklípa” hefur náð ótrúlegri útbreiðslu á skömmum tíma og vekur óneitanlega athygli að enginn skuli til þessa hafa getað upplýst á þessum vettvangi um upprunann. En ég tel mig muna að þetta hafi verið nokkurn veginn svona og finnst skemmtilegt þegar svona ný orðatiltæki verða til en að sama skapi dapurlegt þegar menn þekkja ekki uppruna þeirra.

Þorkell @ 7/11/2007 20.55

“Þetta orð “smjörklípa” hefur náð ótrúlegri útbreiðslu á skömmum tíma og vekur óneitanlega athygli að enginn skuli til þessa hafa getað upplýst á þessum vettvangi um upprunann.”

Það fær mann einmitt til að velta því fyrir sér hvort þeir sem noti orðið séu meðvitaðir um merkingu þess.

Vandinn við samlíkingu Dabba er sá að það eru svo fáir (ef nokkur) sem hafa sömu reynslu og hann og því þarf öll sagan að fylgja með til að fólk átti sig á samhenginu.

Guðni Már @ 7/11/2007 22.28

Takk öll fyrir þetta, tel mig nú loksins skilja orðið. Hitt held ég líka að sé tilfellið að margir noti orðið án þess að skilja það til fulls, það er óheppilegt að nota orðtök án þess að skilja þau því þá lendir maður milli heims og sleggju eins og góður vinur minn orðaði það ;-)

Hildur Edda @ 8/11/2007 09.27

Milli heims og sleggju? Það er líka hægt að orða það eins og hin mjög svo kjarnyrta eiginkona þín. Hún sagðist einhvern tíman ekki vilja vera nagli á milli hamra!

Guðni Már @ 8/11/2007 10.31

hahahahahahah ;-)


© guðnimár.annáll.is · Færslur · Ummæli