guðnimár.annáll.is

Annálleinkahúmorgamalt og gotthugleiðingar í dagsins iðuskemmtilegttrúmál

« Lichteinstein, Salzburg, ný Biblía og staðfest samvist. · Heim · Frábært innlegg frá Davíð Þór »

Mikið er ég ósammála Óskari Óskarssyni

Guðni Már @ 23.44 22/10/07

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 kom einn af skemmtilegri prestum Þjóðkirkjunnar Óskar Óskarsson fram og sagði umræðuna um samkynhneigð einkennast af hommafóbíu. Mikið afskaplega er ég ósammála honum, ég sat prestastefnu og hlustaði á alla örugglega 40-50 ræðumennina sem stigu upp í ræðustól tala um málefnið og ég verð að segja að hommafóbía var síðasta orðið sem einkenndi umræðuna þar.

(Umræðan fór vel fram og var afar skemmtileg, þar fór Óskar hreinlega á kostum og flutti í senn skemmtilega og rökfasta ræðu.) Raunar er það svo að í mínu 27 ára lífi man ég þó eftir tveimur dæmum þar sem ég hef hlustað á þjóðkirkju fólk tala þannig að ég hef hugsað á eftir: ,,Er þetta ekki bara hommafóbía?”, kannski hef ég verið svona heppinn með viðmælendur en það er ekki mín tilfinning að umræðan í kirkjunni einkennist af hommafóbíu. Þá hef ég engan nokkurn tímann heyrt gefa í skyn samband milli barnaníðs og samkynhneigðar. Þegar svo alvarleg dæmi eru dregin fram er líka gott að rökstyðja þau. Annað eru dylgjur sem túlka má uppá hvern sem hugnast.

Ég undrast þessa yfirlýsingu hjá Óskari í kvöld, það er merkilegt frjálslyndi að gefa í skyn að þeir sem ekki eru sammála þér séu fordómafullir, halli réttu máli eða séu haldnir hommafóbíu.

Þetta er ekki fyrsta skipti frá prestastefnu hef ég orðið vitni að því að Óskar kemur fram í fjölmiðlum og lætur sem samræðan í Þjóðkirkjunni um samkynhneigð sé ekki málefnaleg og andmælendur hans séu að fiska í gruggugu vatni. Ég veit svo sem ekki við hverja hann ræðir málin en þetta er sannarlega ekki upplifun mín.

Viðtalið má skoða á slóðinni: http://www.visir.is/article/20071022/FRETTIR01/71022105

url: http://gudnimar.annall.is/2007-10-22/mikid-er-eg-osammala-oskari-oskarssyni/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Torfi Stefánsson @ 27/10/2007 20.14

Mér sýnist nú allt benda til þess að Óskar hafi haft rétt fyrir sér. Umræðan á Kirkjuþingi og meðal presta hafi fyrst og fremst einkennst af hommafóbíu.
En það sem verra er. Þessi umræða um afstöðu kirkjunnar, eða afstöðuleysi, til homma og lesbía virðist hafa kallað fram hommahatur hjá þjóðinni. Brandarar á kostnað homma grassera nú um stundir á bloggíðunum og eru m.a.s. komnar inn á fimmtu mest sóttu bloggsíðuna, visir.is (sjá http://www.visir.is/article/20071027/LIFID01/71027029).

Var ekki haft eftir Kristi eitt sinn að að sem þér gerið einum af hans minnstu bræðrum gerið þér honum sjálfum?
Er ekki kominn tími til fyrir kirkjuna að hugsa sinn gang og reyna fara að að feta þá slóð sem Jesús ruddi fyrir sína áhangendur?

Guðni Már @ 30/10/2007 00.11

Sæll Torfi og takk fyrir athugasemdina. Ég myndi gjarnan vilja fá dæmi um hommafóbíuna sem Óskar og þú sjáið fyrst og fremst einkenna alla umræðu meðal presta og á kirkjuþingi. (tek það reyndar fram að ég var ekki á kirkjuþingi og fæ ekki netpóst presta).

Ég skynjaði heift í skrifum Óskars nú eftir sáttargjörðina góðu sem til varð á kirkjuþingi. Það er finnst mér ekki bera vott um stórmennsku að láta þannig að ef þú færð ekki þínu fram í öllu að þá sé sáttargjörðin fordómafull og málamiðlunin enginn. Guð forði okkur frá að slíkur hugsunarháttur einkenni málamiðlanir þjóðarinnar.

Hvað baggalút varðar hef ég ekki teljandi áhyggjur af gríntextum þeirra enda gera þeir grín að öllu og láta ekkert óviðkomandi.

Þú vitnar í falleg orð Krists (en eins og annars staðar á síðunni hefur fram komið) sé ég ekki glæpinn sem er verið að gera hans minnstu bræðrum, að bjóða þeim í kirkjuna, samþykja og staðfesta ást þeirra frammi fyrir Guði og mönnum, biðja blessunar Guðs yfir sambandinu og gangafrá lagalegum atriðum gagnvart Hagstofunni.

Hvar fetar kirkjan ekki slóð Krists?


© guðnimár.annáll.is · Færslur · Ummæli