guðnimár.annáll.is

Annálleinkahúmorgamalt og gotthugleiðingar í dagsins iðuskemmtilegttrúmál

« Fyndnasti skets sem ég hef séð… · Heim · Ella í landsliðið? »

Ertu hættur að finna lykt, Einstein?

Guðni Már @ 22.28 4/6/07

Hvernig gátum við gert jafntefli við Lichteinstein?

Það búa 34.000 manns í Lichteinstein!

Þar af eru væntanlega um 17.000 þeirra karlmenn. Varlega áætlað má ætla að 2% af þeim séu ekki með licteinsteinst ríkisfang þá standa um 16660 karlmenn eftir.
Nýjustu tölur sýna að 50% evrópska karlmanna eru með þyngdarstuðul yfir 25 BMI. Þeir sem hafa þyngdarstuðul yfir 25 hafa ekkert að gera í landsliðstreyju. Það þýðir að 8340 licteinsteinskir karlmenn hafa mögulega líkamlegt atgervi til að klæðast landsliðstreyju. Hinu eru síðan ekki að leyna að enginn heiðvirtur landsliðsþjálfari myndi hleypa manni með BMI stuðul yfir 18 í landsleik í undankeppni EM.

Þannig getum við auðveldlega lækkað töluna um a.m.k 40% sem þýðir að 5004 karlmenn standa eftir. Þeir eru væntanlega á aldrinum 0-100 ára en heppilegur landsliðsaldur er yfirleitt talin vera um 18-32 ára (annars eru menn of reynslulitlir eða orðnir full svifaseinir).

Ef við gefum okkur að þessir fjórtán árgangar karlmanna sem koma til greina séu um 18% af karlmönnum í Licteinstein þýðir það að 901 karlmaður kemur til greina í landslið Lichteinstein.
Af þessum 901 karlmanni má gera ráð fyrir að 60 % hafi áhuga á fótbolta. Það gera 540 karlmenn eftir fyrir landsliðsþjálfarann að velja úr. En þó að 540 hafi áhuga á fótbolta þýðir það ekki að allir spili hann. Um 2% búa væntanlega við einhvers konar fötlun sem hamlar þeim að spila og gera má ráð fyrir að 6% séu í augnablikinu ekki leikfærir, tognaðir, brákaðir, bólgnir eða meiddir á annan hátt það þýðir að um 498 karlmenn standa eftir.

En þó að þessir 498 hafi áhuga á knattspyrnu þýðir það ekki endilega að þeir stundi hana. Gera má ráð fyrir að 30% af þeim sem hafa áhuga á fótbolta séu að æfa hann og það gefur okkur um 150 einstaklinga sem koma til greina í 20 manna landsliðshóp Lichteinsteins. Með öðrum orðum 2 af hverjum fimmtán leikmönnum sem nenna að æfa knattspyrnu í Lichteinstein enda í landsliðinu.

SVO ERU MENN HISSA Á AÐ HENRY BIRGIR VILJI LÁTA REKA EYJÓLF!

ÞAÐ ER JAFNMIKIÐ AFREK AÐ VINNA 50KR Á HAPPAÞRENNU Á ÍSLANDI EINS OG AÐ ENDA Í LANDSLIÐI LICHTEINSTEIN! (raunar er sínu erfiðara að vinna 50 kr á happaþrennu því það gerist bara á níunda hverjum miða!)

url: http://gudnimar.annall.is/2007-06-04/ertu-haettur-ad-finna-lykt-einstein/

Athugasemdir

Fjöldi 8, nýjasta neðst

Gunnlaugur A. Jónsson @ 4/6/2007 22.47

Góð fyrirsögn Guðni Már, tryggir að maður lesi pitstilinn sem auk þess er bráðskemmtilegur: 9,5!

Árni Svanur @ 5/6/2007 07.07

Snilld.

Hjalti @ 5/6/2007 09.41

Vá hvað ég er búinn að vera bíða eftir þessari færslu! Veðjaði við sjálfan mig að þegar hún kæmi myndir þú taka tölfræðina á þetta. SNILLD félagi.

Carlos @ 5/6/2007 12.59

Ég er viss um að þannig hafi þeir Frakkar sem hafa áhuga á handbolta hugsað, þegar Ísland burstaði landslið þeirra á síðustu Evrópukeppni ….

Halldór Elías @ 5/6/2007 22.17

Þar sem ég er “lítillega” yfir landsliðsmarkinu hans Guðna, þegar kemur að BMI, þá tel ég að þessi færsla sé auk þess niðurlægjandi fyrir mig þar sem hún gefur í skin að knatthæfileikum mínum sé að einhverju leiti ábótavant. Undir því verður vart setið.

Ég verð að undrast þá tölfræði sem hér er kynnt. Sú hugmynd að notast við BMI sem einhvers konar mælikvarða á getu í knattspyrnu og líkindi á að komast í landslið er fráleit og Guðna til minnkunar (veitir kannski ekki af, svo hann komist í landsliðið sitt). Ég minni á að Diego Maradona var rétt um 75 kg og 165 cm þegar hann blakaði boltanum yfir Shilton og skyldi ensku vörnina eftir grátandi fimm mínútum síðar, jú, með BMI upp á 27.5. Það er nú gott að Guðni stýrði ekki argentínska landsliðinu þá, enda bara 4 ára, hann hefði skilið litlu fitubolluna hann Diego eftir heima. Sjálfsagt má nefna fjölmörg önnur dæmi, ekki voru Paul John Gascoigne eða Thomas Brolin nein fis eða aukvisar í íþróttinni.

Hjalti @ 6/6/2007 10.34

Nú verð ég að halda uppi vörnum fyrir félaga Guðna. Þú hefur nefnilega rangt fyrir þér Elli… Guðni var 6 ára.

Guðni Már @ 6/6/2007 14.32

Takk fyrir athugasemdirnar. Sérstaklega þótti mér vænt um að fá einkunnir á nýjan leik frá prófessor Gunnlaugi ;)

Ella athugasemd er ágæt en skemmst frá því að segja mér var aldrei boðin þjálfarastaða Argentínu þó vissulega megi ekki útiloka að ég hafi verið staddur í frímínútum í Ísaksskóla þegar símtalið barst frá Argentínu. Hinu er ekki að leyna að ef ég hefði þjálfað þá hefði ég rekið Maradona áfram eins og hund og þá fyrst hefðum við séð hvað í honum bjó!

Menn komast aldrei nema ákveðið langt á tækninni Elli minn, (þú hefur til dæmis náð langt í prestaboltanum en ekki farið alla leið, hvort það er líkamlega atgervið eða sú kalda staðreynd að þú ert vígður djákni en EKKI prestur, hefur háð þér skal ósagt látið ;-) .

Líkamlega atgervið gerir gæfumunin milli stjörnu og stórstjörnu. Michael Schumacher hefði aldrei orðið meistari á bíl frá Sauber eða Minardi… sama hversu góður ökumaður hann er. Eiður Smári í KR og Eiður Smári hjá Chelsea er ekki sami hluturinn. Brolin bætti á sig nokkrum kílóum eftir fótbrot og ferill hans hjá Leeds verða ekki flokkuð sem kaup sögunnar.

Maradona, ég segi bara, hvað ef? Mér er til efs að mannshugurinn geti skilið til fulls hversu góður Maradona með BMI stuðul undir 18 hefði verið!

guðnimár.annáll.is - » Lichteinstein, Salzburg, ný Biblía og staðfest samvist. @ 20/10/2007 00.41

[...] veit ekki hvað á að segja um tapið gegn Lichteinstein ég var búin að segja þetta áður og vil ítreka það (reyndar þá vil ég taka fram að misskilnings gætti hjá mér í [...]


© guðnimár.annáll.is · Færslur · Ummæli